Við upphaf árs

Árið byrjaði vel hjá fjölskyldunni. Nýjasti stórfjölskyldumeðlimurinn leit dagsins ljós 1.1.2008 kl. 01.05. Jú, jú, fyrsta barn ársins. Til hamingju Sóla, Hreiðar og Ragnar Bjarni.  Hef að vísu ekki farið og kíkt á prinsessuna. Kíki væntanlega á hana í vikunni. Sendi líka hamingjuóskir til InLove Bryndísar og PEO með Þingvallaferðina. Fyrst að maður er byrjaður á hamingjuóskum þá fá Dagný og Atli einnig innilegar kveðjur og óskir um að dóttirin dafni vel - á nú ekki von á öðruWink.  Að lokum þá fá foreldrar mínir kveðjur og innilegar hamingjuóskir með nýja bátinn - Sigurey - sem er að sigla til heimahafnar á Drangsnesi nú í kvöld.

Annars þá er lífið að komast í fastar skorður eftir hátíðirnar. Nú er það ræktin á morgnanna. Við Elsa ætlum að vera duglegar að mæta til Sigurbjargar þá daga sem við mætum ekki til Hemma þjálfara. Svo var ég að skrá mig í magadans - það verður nú stuð. Búin að langa til þess lengi.

Félagsmálin verða náttúrulega fyrirferðamikil fram á vor. Ég hef þó minnkað við mig í þeim efnum. Lét af formennsku í FUF-DS í október og er nú varamaður í Hverfisráði Árbæjar frá og með áramótum en var áður aðalmaður. Nú er ég einungis formaður í starfsmannafélaginu, formaður í LC-4 og Vefstjóri LCÍ. Ég er nú einu sinni í þessu af því að mér þykir það gaman.

 


"Sumarið er tíminn..."

Það var alveg ógleymanleg stemming í Höllinni í kvöld. Við frænkurnar - Unnur Sædís og ég - gáfum okkur miða á tónleika með Bubba Morthens og Stórsveit Reykjavíkur í jólagjöf. Þetta voru æðislegir tónleikar. Kóngurinn var alveg í essinu sínu og bandið alveg frábært. Uppklappið var einna best. Þar flutti hann "Sumarið er tíminn" og "Rómeó og Júlíu". Yndislegt. Ragnar og Garðar voru í fantaformi í Sumarið... . Ég fór á tvenna tónleika í Höllinni fyrir jól og verð að segja að þetta voru gæðalega séð mun betri tónleikar. Hljómurinn var mun betri og engir skruðningar í hátölurunum eins og vildi verða á Bó og á Frostrósum.

 

Takk fyrir mig!


Helgin í hnotskurn

Fór í ræktina í gærmorgun. Þar var mér tilkynnt að einkaþjálfarinn ætti mig frá og með 15. janúar á næsta ári - tja. útlitið er ekki gott. Jú, jú. Ég er voða glöð með það. Enda hef ég ekki verið að standa mig sem skyldi. Aðalástæðan hefur verið áherslan á vinnuna en það hefði nú ekki átt að hafa áhrif á ræktina en gerði það samt. Slakaði svo vel á heima og fór svo á tónleikanna með Björgvini Halldórssyni og jólagestum. Um tónleikanna er það að segja að þeir voru yfir meðallegi. Það voru gestirnir sem héldu tónleikunum uppi. Vil ég þá helst nefna Skólakórs Kárnesskóla, Helga Björns og Svölu Björgvins. Bakraddirnar Eyfi, Friðrik Ómar og Erna Hrönn - hljómuðu eins og englar.

Eftir tónleikanna fór ég svo og fékk mér góða hnetusteik á Grænum kosti með Ellu Stínu og Árna. Gengum svo smáspöl á Laugaveginum. Tókst að versla tvær fyrstu gjafirnar. Þetta er greinilega allt að koma hjá mér.

Í dag fór ég á tvö jólaböll hjá starfsmannafélaginu. Alveg glimrandi stemming. Æðislegt að sjá glaða jólasveina gleðja börnin. Eftir seinna ballið var farið í vinnunna og kláruð nokkur mál.

 Að lokum fær mamma kveðju. Hún átti stórafmæli í gær 9. desember. Elsku besta mamma! Til hamingju með 60 árin. Min ósk er að þú eigir jafn góð 60 ár fyrir höndum.

 


Vikan

 Jólagjafabæklingarnir detta nú hver um annann í gegnum bréfalúguna. Af því sem ég er búin að skoða er dýrasta gjöfin í Leonard bæklingnum. um milljón krónur. Ætli að maður yrði aflsappaður með 1,2 miljón á hendinni. Held ekki!

Nóg að gera í þessari viku sem er gott mál. Varð þó að sleppa bíóferð með túttunum - skilst að það hafi verið í lagi þar sem að ferðin var ekki farin. Wink

Þá er það fyrstu tónleikarnir á þessari aðventu sem að maður sækir á morgun. Við Linda og Kristinn ætlum að skella okkur á Bó og gesti. Það verður gaman. Jólaböllin taka svo við á sunnudag. Það er alltaf gaman.


Í (h)eldri manna tölu

Frökenin hefur haft svo mikið fyrir stafni sl. mánuð að hún hefur ekki bloggað mikið. Markmiðið er að taka sig á í þeim efnum.

Það sem helst gerðist í síðasta mánuði er að ég fór á fund sem kjörinn fulltrúi í Hverfisráði Árbæjar með Lögreglu Höfuðborgarsvæðisins. Þar sýndu þeir okkur tölfræði fyrir svæðið. Það verður að segjast eins og er að þær tölur sem þar komu fram einkennast helst af því að á svæðinu eru tveir aðalstofnvegir þ.e. Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur. Ljóst er samt að sýnileiki lögreglunnar hefur áhrif til hins betra. Við í Árbæ eigum aðgang að frábærum lögreglumanni sem fékk af sjálfsögðu sitt hrós í eyru lögreglusjóra. Ljóst er að skv. framkomnum tillögum frá nýjum meirihluta að Hverfisráðin fá sinn fyrri styrk og meira en það. En skv. tillögu þá munu þau fá pening til úthlutunar tvisvar á ári til að styrkja verkefni til betrumbóta í hverfinu. Gott framfaraskref það.

Annars þá er ég víst komin í eldri manna tölu. Það gerðist í síðustu viku. Af því tilefni bárust mér heilmargar kveðjur og gjafir. Takk fyrir það. Heimasíminn ákvað að týnast - en ykkur lesendur góðir til upplýsinga þá fannst hann í kvöld.

Fór á listmunauppboð hjá Gallerí Fold í kvöld. Margar góðar myndir á uppboði, sjá www.myndlist.is.

Verð nú að fara að huga að jólunum - tja, allavega að þessum 70 jólakortum sem að ég á eftir að skrifa - sem verður nú ekki leiðinlegt.


Menningarlegt kvöld

Byrjaði kvöldið á því að fara á opnun yfirlitsýningar yfir verk Kristjáns Davíðssonar í Listasafni Íslands í kvöld. Hef aldrei farið á opnun þar - svakalega margt fólk mætt til að bera list Kristjáns augum. Margt góðra verka þar á ferð. Sjálf er ég hrifnust af verkunum sem eru mjög "simpil" og ekki litaglöð.

Að listsýningunni lokinni mætti ég til vina minna þeirra Eyjólfs Pálssonar og Guðmundar í Epal. Epal var að stækka við sig húsnæðið og er það alveg rosalega flott og fá húsgögnin alveg að njóta sín. Til hamingju með þetta strákar.

Frábært að eyða kvöldinu svona. Mikil afslöppun.

 Helginni verður síðan varið í World Class og í vinnunni.


Aðalfundur FUF-DS 3. október nk.

Aðalfundur FUF-DS

  

Aðalfundur Félags ungra framsóknarmanna í Dala- og Strandasýslu verður haldinn miðvikudaginn 3. október nk. kl. 20.30 í Félagsheimilinu Árbliki.

 

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Kosning starfsmanna fundarins (fundarstjóri og ritari)

2. Skýrsla stjórnar

3. Reikningar félagsins lagðir fram

4. Lagabreytingatillögur

5. Kosning stjórnar

6. Önnur mál

 

Þeir sem áhuga hafa á að bjóða sig fram í stjórn félagsins eða til annarra trúnaðarstarfa á vegum félagsins eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við undirritaða.

 

Það er von okkar að sem flestir ungir framsóknarmenn sjái sér fært um að mæta.

  

fh. stjórnar FUF-DS

 

Svava H. Friðgeirsdóttir formaður


Er hér enn!

Tölvan mín fékk vírus í sumar og er ekki enn búin að ná sér þótt svo að hún hefi verið sett á pensilín.

Sumarið hefur verið alveg þokkalegt. Að vísu kannski farið mikið framhjá mér þar sem að ég hef eytt miklum tíma mínum í vinnu minni. Vinnan mín er það skemmtileg og krefjandi að það hefur verið gaman

Er komin með nýtt áhugamál - gönguferðir. Ég hef farið Leggjarbrjót, uppá nokkur fjöll hér sunnan heiða og gekk svo loks á Esjuna og það uppá topp. Á morgun fer ég svo með vinnufélögum til Mallorca í viku gönguferð. Mikil spenna.

Ég fór til Tallinn, Eistlandi í lok ágúst á alheimsráðstefnu LC International. Þar voru samankomnar 800 konur frá 30 þjóðlöndum. Var mikið fjör og gaman að kynnast menningu Eistlands.

Læt þetta gott heita í bili!


Út og suður í Árneshreppi

Frábær þáttur hjá Gísla Einarssyni. Þar fór hann í heimsókn í Árneshrepp á Ströndum. Skora á þá sem ekki sáu þáttinn að gera það sem allra allra fyrst á www.ruv.is. Viðmælendum Gísla óska ég til hamingju með frábæra frammistöðu.

Nýr vefur drangsnes.is

Nú hefur Kaldraneshreppur opnað vef http://www.drangsnes.is/ . Tilgangur hans er að veita upplýsingum og fréttum til íbúa hreppsins ásamt upplýsingum til ferðamanna og þeirra sem áhuga hafa á öllu sem tengist honum. Ég vil óska aðstandendum vefsins til hamingju með glæsilegan vef og verður hann einn af mínum föstu stoppistöðum á ferðalagi um Veraldarvefinn.

Við sjáumst svo öll á Bryggjuhátíðinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband